Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, var valinn manneskja ársins 2016 af Time . Trump hefur verið á allra vörum á þessu ári og sigraði Hillary Clinton nokkuð óvænt í forsetakosningunum vestanhafs.

Trump sagði í viðtali við NBC að hann taldi það mikinn heiður að vera valinn manneskja ársins. Tilnefndir á lista blaðsins voru aðilar á borð við Vladimír Pútín, Rússlandsforseti og Hillary Clinton andstæðingur Trumps í forsetakosningunum.

Fyrrum leiðtogi UKIP og vinur Trumps, Nigel Farage var einnig á lista tilnefndra, en hann var einn af leiðtogum herferðar sem sigraði í þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, fyrr á þessu ári.

Clinton lenti í öðru sæti í vali Time, en í rökstuðningi Time kom meðal annars fram að Trump hafi: „endurskrifað reglur stjórnmálanna í Bandaríkjunum.“

Meðal þeirra sem voru einnig tilnefndir voru; Bandaríska fimleikakonan Simone Biles, söngkonan Beyonce Knowles og forstjóri Facebook, Mark Zuckerberg.