Undanfarin sólarhring hafa fjölmiðlar og samfélagsmiðlar á Íslandi logað vegna furðulegs fréttaflutnings um að leiðtogar Bandaríkjanna og Rússlands hyggðust stefna á friðar- og sáttafund sín á milli hér á landi.

Mátti lesa það út úr viðbrögðum sumra að hér myndi allt loga í mótmælum þegar að fundi kæmi

Fréttin átti fyrst uppruna sinn í breska blaðinu Sunday Times , þar sem fundurinn er sagður eiga að verða endurtekning á fundi Reagan og Gorbachev í Höfða og var tekin upp af mörgum fjölmiðlum hér á landi þótt engin staðfesting hefði borist innan úr herbúðum Trump.

Nú er hins vegar komið í ljós að ekkert er að marka fréttina, en Sean Spicer, verðandi fjölmiðlafulltrúi Trump tísti að enginn fótur væri fyrir því að slíkt stæði til á samfélagsmiðlinum Twitter.

Íslenskir fjölmiðlar höfðu samband við nýjan utanríkisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson en hann sagði engar formlegar beiðnir eða erindi hafi borist íslenskum stjórnvöldum um að halda slíka fund að því er fram kemur á mbl.is .