Donald Trump, Jeb Bush og Scott Walker eru vinsælustu forsetaframbjóðendur meðal Repúblikana fram til þessa, ef marka má skoðanakannanir vestanhafs. Samkvæmt könnunum Pollster, Real Clear Politics og Bloomberg nýtur Donald Trump stuðnings meðal 23,2% Repúblikana, en Jeb Bush nýtur 12,8% stuðnings og Scott Walker 10,6%. Aðrir njóta minni stuðnings.

Tölur úr skoðanakönnun Fox News hafa ekki verið birtar, en tíu efstu frambjóðendurnir í þeirri könnun munu mætast í sjónvarpskappræðum næsta fimmtudagskvöld á Fox. Miðað við áðurnefndar kannanir er líklegt að Donald Trump, Jeb Bush, Scott Walker, Ben Carson, Mike Huckabee, Ted Cruz, Marco Rubio, Rand Paul, Chris Christie og John Kasich verði boðið til kappræðnanna.

Athygli vekur að ríkisstjóri Texas, Rick Perry, er ekki á meðal tíu efstu frambjóðenda. Hann mælist í 11. sæti með 2% stuðning, á eftir John Kasich, með 2,8% stuðning.