*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Erlent 26. febrúar 2019 08:08

Trump frestar frekari tollum á Kína

Bandaríkjaforseti er ánægður með gang viðræðna við kínversk stjórnvöld og ætlar að fresta gildistöku tolla.

Ritstjórn
Frá fundi Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína.
epa

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hyggst fresta því að frekari hækkanir á tollum á vörur frá Kína taki gildi, en það átti að gerast undir lok þessarar viku. Ástæðan sé verulegur árangur á ýmsum sviðum sem löndin hafa deilt um, eins og hugverkaréttindi, eftir viðræður landanna yfir helgina.

Sagði Trump í tísti á samfélagsmiðlinum Twitter að ef áfram megi búast við gangi í viðræðunum geti Bandaríkin skipulagt ráðstefnu með Xi Jinping leiðtoga landsins til að skrifa undir samkomulag og þar með endi á árslöngum tolladeilum ríkjanna.

Klukkan 12 á  hádegi á laugardaginn næstkomandi eiga að taka gildi hækkun tolla á andvirði 200 milljarða dala af kínverskum vörum, úr 10% í 25%.

Hafa kínversk stjórnvöld boðist til að auka kaup á bandarískum landbúnaðarvörum og orkugjöfum sem og þjónustu, minnka takmarkanir á innreið bandarískra fyrirtækja í fjármála- og bílaiðnaði inn á kínverskan markað og auka hugverkavernd vegna bandarískra einkaleyfa.

Hins vegar hafa kínversk stjórnvöld ekki ljáð máls á neinum breytingum á sviðum sem þau telja nauðsynleg til að viðhalda stjórn kommúnistaflokks landsins. Þar með talið í minni niðurgreiðslum og stuðningi við ríkisfyrirtæki sem og aðra stefnumörkun stjórnvalda í hagkerfinu í Kína.

„Við erum að taka skref í átt að umbótum á ríkisfyrirtækjum til að auka samkeppnishæfni þeirra, bara ekki á þan hátt sem Bandaríkin vilja að við gerum,“ hefur SWJ eftir kínverskum ráðamanni.

Áður hafa bandarísk stjórnvöld sagt Kínverja hafa samþykkt breytingar á gjaldeyrisstefnu landsins, en stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa löngum gagnrýnt Kínverja fyrir að halda gengi kínverska yuansins of veiku. Þó hafa stjórnvöld þar nú reynt að halda genginu frá því að veikjast frekar af ótta við fjármagnsflótta.

Bandarísk fyrirtæki hafa löngum kvartað yfir því að Kínerjar hafi beitt ýmsum aðferðum til að komast yfir bandaríska tækni, þar með talið með skilyrðum um samstarf ásamt regluverki og stjórnvaldsnefndum þeim tengdum sem hafi deilt tækninni áfram til kínverskra fyrirtækja.

Eitt deilumálið sem enn sé útkljáð er þó hvernig dæma eigi um hvort Kínverjar séu að standa við samninginn og hve hratt tollarnir geti tekið gildi ef þeir þykja ekki vera að standa sig í því.

Stikkorð: Bandaríkin Kína Donald Trump tollar Bandaríkin Kína Xi Jinping
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is