Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Jerome Powell seðlabankastjóra hafa gert tekið margar rangar ákvarðanir í embætti, og segist nú íhuga að lækka Powell í tign og skipa nýjan seðlabankastjóra. Wall Street Journal segir þó óvíst hvort slík lagaheimild sé til staðar.

Trump gagnrýndi Powell harðlega á blaðamannafundi vegna kórónufaraldursins í gær. Forsetinn hefur lengi haft horn í síðu seðlabankastjórans, sem hann skipaði sjálfur í embætti, fyrir háa stýrivexti. Powell hefur svarað því til að ákvarðanir peningastefnunefndar taki einvörðungu tillit til efnahagsástandsins og markaða hverju sinni.

Í liðinni viku lýsti seðlabankinn því yfir boðin yrðu skammtímalán á fjármálamörkuðum og bankinn myndi kaupa ríkisskuldabréf til að auka lausafé í umferð, auk þess sem stýrivextir voru lækkaðir í 1-1,25% í fyrstu vaxtaákvörðun utan vaxtaákvörðunardagatals bankans síðan 2008. Næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans er svo í komandi viku.

Trump sagðist vonast til að seðlabankinn sæi loks að sér og rækti skyldur sínar, en hingað til hefði ríkisstjórnin þurft að hlaupa í skarðið og gera það sem seðlabankinn hefði verið óviljugur til. Þá sagði hann gríðarleg tækifæri um þessar mundir, en Powell gerði stjórnvöldum erfitt fyrir að nýta þau.

Sem fyrr segir er óvíst hvort Trump hafi heimild til að skipa nýjan seðlabankastjóra úr röðum nefndarmanna í peningastefnunefnd, en þess fyrir utan hafa aðrir nefndarmenn hingað til stutt ákvarðanir Powell í einu og öllu, auk þess sem nefndin hefur vald til að kjósa seðlabankastjóra úr eigin röðum.