Donald Trump Bandaríkjaforseti þvertekur fyrir að hafa greitt 750 dali í tekjuskatt til alríkisins árin 2016 og 2017 , líkt og fullyrt var í frétt New York Times – sem kveðst hafa skattskýrslur forsetans undir höndum – í gær.

Trump lét ummælin falla á blaðamannafundi í gær. Hann vildi hinsvegar ekkert gefa upp um hvað hann hefði raunverulega greitt í slíka skatta, annað en að það sé „ansi mikið“. Hann hafi í ofanálag einnig greitt mikið í tekjuskatt til fylkja.

Fréttir af skattaskýrslunum heyra til nokkurra tíðinda, en eftir þeim hefur verið kallað allt frá því í síðustu forsetakosningabaráttu árið 2016.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal lofaði Trump þá ítrekað að birta skýrsluna, en gerði það svo aldrei, og braut þar með fjögurra áratuga hefð þess efnis að forsetaefni gerðu það.