Donald Trump Bandaríkjaforseti greiddi engan tekjuskatt á 10 af síðustu 15 árum, og aðeins 750 dali í tekjuskatt til alríkisins árin 2016 og 2017, vegna viðvarandi tapreksturs.

Þetta kemur fram í frétt New York Times , sem hefur skattskýrslur forsetans allt frá því á síðustu öld og fram til ársins 2017 undir höndum.

Í ítarlegri umfjöllun New York Times eru skattskýrslurnar sagðar segja allt aðra sögu en þá sem Trump hefur sagt opinberlega. Þrátt fyrir hundruða milljóna dala tekjur skili hann viðvarandi tapi, sem hann „beiti óspart“ til að forðast að greiða skatta.

Í skattskýrslunum kemur fram að forsetinn eigi eignir upp á hundruð milljóna dala, en tölurnar eru ekki sagðar lýsandi fyrir raunverulegan auð hans.

Haft er eftir lögfræðingi Trump-samsteypunnar að „flestar ef ekki allar staðreyndir [sem í skjölunum komi fram] virðist vera ónákvæmar“. Hann sagði Trump hafa greitt tugi milljóna dala í skatta til alríkisyfirvalda síðastliðinn áratug, og þar af fleiri milljónir frá því hann tilkynnti um framboð sitt til forseta árið 2015.