Donald Trump hefur sagt margt sem vekur furðu í gegnum kosningabaráttu sína fyrir útnefningu sinni sem forsetaefni Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, og jafnvel áður.

Góður í drepa hryðjuverkamenn

Eitt af því sem reglulega hefur komið upp í máli hans eru lofsyrði eða því sem næst um ýmsa einræðisherra og sterka leiðtoga, nú síðast um Saddam Hussein fyrrverandi forseta Íraks.

„Hann var slæmur gaur, virkilega slæmur gaur. En veistu hvað hann gerði vel? Hann drap hryðjuverkamenn. Hann gerð það svo vel,“ sagði Trump á kosningafundi í Raleigh í Norður Karólínu og hélt áfram:

„Þeir lásu ekki upp réttindi þeirra - þeir sögðu ekkert, þeir voru hryðjuverkamenn, þeir voru búnir að vera. Í dag er Írak Harward fyrir hryðjuverkamenn. Ef þú vilt verða hryðjuverkamaður ferðu til Írak. Það er eins og Harward. Allt í lagi? Svo sorglegt.“

Gæti haft áhuga á að nota aðferðirnar sjálfur

Ummælin hafa endurvakið áhyggjur margra forystumanna flokksins, sem hafa margir hverjir verið umhugað um hve fjálglega hann hefur oft talað um alþjóðastjórnmál. Gagnrýnendur á báðum vængjum stjórnmálanna í Írak hafa jafnframt talað um hve dökka sýn frambjóðandinn hafi á heimsmálunum sem ætti að vekja kjósendur til umhugsunar.

„Þegar aðili sem býður sig fram til forseta hælir reglulega grimmum, ólýðræðislegum valdsmönnum og þeirra aðferðum, held ég að það sé sanngjarnt að hafa áhyggjur af því að þetta séu aðferðir sem viðkomandi hefði áhuga á að nota ef á þyrfti að halda,“ sagði Tim Miller, fyrrverandi aðstoðarmaður Jeb Bush.