*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Erlent 9. ágúst 2020 16:05

Trump heimilar skertar viðbótarbætur

Bandaríkjaforseti hefur heimilað 300 dala viðbótargreiðslu á viku til atvinnulausra, í stað 600 eins og var út júlí.

Ritstjórn
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði rökin fyrir lækkun úr 600 dölum í 300 á viku helst þau að hvetja fólk til að snúa aftur til vinnu.
epa

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað 300 dala viðbótargreiðslu til atvinnulausra á viku, rúmar 40 þúsund krónur, eftir að 600 dala viðbót vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar rann út um síðustu mánaðarmót. Wall Street Journal segir frá.

Tilskipun Trump heimilaði 400 dala greiðslu á viku, en veitir fylkjunum aðeins fjármagn fyrir 300. Hann hvatti fylkjayfirvöld þó til að nýta heimildina og fjármagna þá 100 dali sem upp á vantaði sjálf.

Greiðslan er til viðbótar við hefðbundnar atvinnuleysisbætur og hefur sem fyrr segir numið 600 dölum á viku frá því faraldurinn braust út, en ekki náðist samkomulag í þinginu um að framlengja úrræðið áður en það rann út.

Andstæðingar framlengingar bentu helst á að greiðslurnar hefðu letjandi áhrif á atvinnuleit, en fylgjendur bentu á mikil áhrif faraldursins og sóttvarnarúrræða gegn honum bæði á þá sem misst hafa vinnuna, og efnahagslífið almennt.

Trump sagði markmiðið með því að greiða aðeins 300 dali nú í stað 600 vera að hvetja fólk til að snúa aftur til vinnu.

Stikkorð: Trump Donald