Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania Trump forsetafrú hafa greinst með COVID-19. Trump greindi frá þessu á Twitter síðu sinni og segir hjónin komin í einangrun. Mánuður er til forsetakosninga í landinu.

Tveimur tímum fyrr tísti Trump til að tilkynna að Hope Hicks, einn nánasti samstarfsmaður forsetans hefði greinst með kórónuveiruna og hjónin biðu niðurstaðna úr veiruprófi.

Viðskipti með hlutabréf fyrir opnun markaða í Bandaríkjunum benda til þess að þau muni taka dýfu þegar hlutabréfamarkaðir opna síðar í dag.

Sean Conley, læknir forsetahjónanna, hefur gefið frá sér yfirlýsingu um að forsetahjónin séu við góða heilsu. Þau muni verða í Hvíta húsinu á meðan þau nái bata.

Stjórnmálaskýrendur vestanhafs velta vöngum yfir hver áhrifin verði á forsetakosningarnar. Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að gera lítið úr hættunni af kórónuveirunni og svifasein viðbrögð við að hefta útbreiðslu veirunnar.