*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Erlent 4. febrúar 2020 11:01

Trump hlakkar yfir óförum í Iowa

Seinka þurfti úrslitum í fyrstu forkosningum Demókrata. Sonur Bandaríkjaforseta, Trump yngri, nýtti það til að segja þá óhæfa.

Ritstjórn
Hinn skemmtilega nefndi Pete Buttigieg, fyrrum borgarstjóri frá Indiana, lýsti yfir sigri í forvali Demókrata í Iowa þó engar niðurstöður hafi verið birtar, sem Donald Trump forseti nýtti sér til að gera lítið úr Demókrötum.
epa

Ekki tókst að skýra frá sigurvegara í forvali Demókrata fyrir frambjóðanda þeirra til forsetakosninganna í haust, sem sonur Donald Trump Bandaríkjaforseti nýtti sér óspart. Faðir hans, Donald Trump eldri er væntanlegur frambjóðandi Repúblikana en hann vann forvalið fyrir Repúblikana með yfir 90% atkvæða.

Forkosningarnar fóru fram í nótt, en Iowa er fyrsta ríkið sem fulltrúar Demókrataflokksins í Bandaríkjunum kjósa komandi frambjóðanda sinn. Á sama tíma fóru fram forkosningar Repúblikana, sem Trump vann með 97,1% atkvæða, en tveir frambjóðendur fengu rétt yfir 1% atkvæða hvor.

Tæknilegir örðugleikar eru sagðir ástæða þess að tafir hafa orðið á því að upplýst sé um sigurvegarann demókratamegin. Ekki er um hefðbundna kosningu að ræða, heldur svokallað forval, þar sem fulltrúar demókrata á 1.678 svæðum mæta og lýsa yfir stuðningi við frambjóðendur í tveimur umferðum.

Fyrstu fréttir hermdu að nýtt app sem átti að nota til að koma upplýsingum um valið á hverjum stað til miðstjórnar flokksins hafi bilað en í yfirlýsingu hennar um málið segir hún ástæðuna vera ósamræmi í tölum frá þremur svæðum.

Nú átti í fyrsta sinn að gefa upp ekki einungis hvernig stuðningurinn skiptist í seinni hluta forvalsins heldur einnig þegar fulltrúar gátu lýst stuðningi við hvaða frambjóðanda sem er í fyrstu umferð, en þeir þurfa svo að skipta sér milli annarra eða fara heim ef frambjóðandi þeirra nýtur ekki lágmarksstuðnings.

Kosningateymi Donald Trump var ekki lengi að nýta sér vandræðaganginn og sagði sonur hans og nafni að flokkur sem ekki gæti stýrt eigin forkosningum skammlaust gæti ekki stýrt landinu.

Haft var eftir formanni Demókrataflokksins í ríkinu að verið væri að samræma tölurnar við þær sem settar voru á pappír á hverjum stað og hann væri þess fullviss að hægt væri að skýra frá endanlegum tölum.

Trump yngri nýtti sér þetta einnig og vísaði í orðalag um gæðastjórnun úrslitanna, og ýtti þar með undir samsæriskenningar um að verið væri að hagræða úrslitunum til handa þeim sem væru þóknanlegir herrunum í höfuðborginni.

Þrátt fyrir að engar niðurstöður hefðu komið lýsti fyrrum borgarstjórinn frá Indiana, Pete Buttigieg, yfir sigri í kosningunum, en hann hafði verið með mesta stuðninginn í skoðanakönnun frá því 10. janúar. Nafni hans hafði svo verið sleppt í könnun sem átti að birta á laugardag, en var ekki birt á endanum vegna mistakanna, sem einnig ýtti undir samsæriskenningar.

Í fyrri könnun sömu aðila var Buttigieg svo fyrsti valkostur 20% þeirra sem höfðu kosningarétt, sem var aukning um 16% frá því í september. Öldungadeilarmaðurinn Elizabeth Warren frá Massachussets ríki var næst með 16%, rétt fyrir ofan bæði fyrrum varaforsetinn Joseph Biden og öldungardeildarþingmanninn Bernard Sanders frá Vermont, með 15% hvor.

Hafði þá fylgi Warren lækkað um 6 prósentustig og Biden um 5 frá því í september, en Sanders bætt við sig 4 prósentum. öldungardeilarþingmðaurinn Amy Klobuchar frá Minnesota kom næst með 6%, sem er tvöföldun frá því í september.

Flestir frambjóðendurnir eru nú á leið eða komnir til New Hampshire þar sem næstu forkosningar fara fram, eftir viku 11. febrúar, en án þess stuðnings sem sigur og umfjöllun um hann frá Iowa, gæti nýst í áframhaldandi kosningabaráttu.

Svipað gerðist hjá Repúblikunum árið 2012, þegar Mitt Romney, sem á endanum varð forsetaframbjóðandi flokksins, var lýstur sigurvegari þó seinna hefði komið í ljós að þingmaðurinn Rick Santorum hefði verið réttkjörinn frambjóðandi, en hann náði ekki að nýta sér það í áframhaldandi baráttu fyrir útnefningunni.

Er talið líklegt að þessi niðurstaða nú hjá Demókrötum komi Biden sér vel, en hann virðist skora hátt í könnunum fyrir kosningarnar í New Hampshire.