Bandaríski viðskiptamaðurinn og forsetaframbjóðandinn Donald Trump lét þau ummæli falla að honum fyndist stjórnarhættir Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, aðdáunarverðir.

Á pólitískum fundi í Iowa hóf Trump mál sitt á því sem hann hefur haldið fram í dágóða stund - að banna ætti múslimum inngöngu í Bandaríkin meðan á ISIS-vandanum stæði. Því næst sneri hann máli sínu að Kim Jong-un.

„Maður verður að viðurkenna það,” sagði Trump. „[Hvernig hann stjórnar] … er ótrúlegt. Hann gerði út af við þennan og hinn. Þessi gaur er ekki að spila neina leiki.”

Trump vísar eflaust til hvarfs Jang Song Taek, frænda Jong-un, sem var sóttur til saka fyrir að vera andbyltingarsinni og í kjölfarið líflátinn. Öllum myndum af honum var svo breytt eða eytt úr gagnabanka stjórnarinnar.

Eflaust hefur Norður-Kórea verið Trump hugleikin vegna nýlegra frétta um að her ríkisins hafi verið að gera sínar fyrstu tilraunir með vetnissprengjur, en deilt er um hversu líklegt það er að raunverulega hafi verið um vetnissprengju að ræða.