Deildar meiningar eru um hve margir tóku þátt í umdeildri atkvæðagreiðslu í Venesúela í gær þar sem kosið var til stjórnlagaþings. Delsa Solórzano, einn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sagði einungis um 9% atkvæðisbærra kjósenda hafa tekið þátt, en skoðanakannanir hafa sýnt að um 70% íbúa landsins hafi verið á móti því að kosið yrði til stjórnlagaþingsins yfir höfuð.

Stjórnvöld segja hins vegar kjósendur hafa verið um 8,1 milljón, eða 41,5% kjósenda, en samkvæmt frétt NBC voru margir kjörstaðir í landinu tómir.

Níu létust í mótmælum

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um nýlega hélt stjórnarandstaðan eigin atkvæðagreiðslu þar sem svipað hlutfall kaus, þó ekki væri um opinbera atkvæðagreiðslu væri að ræða og mun færri kjörstaðir. Kusu þar nær allir þátttakendurnir gegn tillögum um nýtt stjórnlagaþing en einnig með tillögu um að herinn gripi inn í og tryggði að stjórnarskránni sem nú er í gildi væri fylgt.

Mikil mótmælaalda fylgdi kosningunum í gær, og lokuðu margir andstæðingar Maduro forseta vegum í höfuðborginni. Með þinginu er forsetinn talinn vilja framlengja rétt sinn til að sitja sem forseti og auka völd sín. Stjórnvöld segja níu manns hafa látist í mótmælunum og sprakk sprengja fyrir utan höfuðvígi stjórnarandstæðinga, sem særði 7 lögreglumenn.

Íhuga bann á olíuinnflutningi

Tveir háttsettir stjórnarliðar í ríkisstjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa sagt að verið sé að íhuga víðtækar refsiaðgerðir gegn Venesúela. Hefur forsetinn sagt kosningu stjórnlagaþingsins afnema það litla sem eftir er af lýðræði í landinu.

Sagði hann Nicolas Maduro „dreyma um að verða einræðisherra,“ og að Bandaríkin myndu ekki standa hjá meðan Venesúela væri að hrynja. Hefur ríkisstjórnin í Bandaríkjunum sagt atkvæðagreiðsluna „hannaða til að koma í stað lýðræðislega kjörnu þinginu og grafa undan sjálfsákvörðunarvaldi þjóðarinnar.“

Þingið í landinu er í höndum stjórnarandstöðunnar eftir síðustu þingkosningar, en forsetinn hefur nýtt leiðitaman hæstarétt landsins til að fara framhjá þinginu í stjórnvaldsákvörðunum.

Settu refsiaðgerðir á háttsetta stjórnarliða

Á miðvikudag settu bandarísk stjórnvöld, ásamt fleiri löndum sem fylgdu í kjölfarið, refsiaðgerðir til höfuðs 13 einstaklingum í ríkisstjórn og her landsins sem eru nátengdir Maduro forseta Venesúela. Hefur Trump hótað frekari refsiaðgerðum, og að sögn heimildarmanna CNN er ein hugmyndin sú að stöðva kaup á olíu frá landinu, en um 10% af öllum olíuinnflutningi til Bandaríkjanna eru frá Venesúela.

Er landið þriðji stærsti innflytjandi olíu til Bandaríkjanna á eftir Sádi Arabíu og Kanada, en olía er aðalútflutningsafurð landsins, og hafa stjórnvöld nýtt stjórn sína á olíuauðlindinni til að styrkja stöðu sína og kaupa sér atkvæði og stuðning áhrifahópa.