Donald Trump Bandaríkjaforseti segir seðlabanka Bandaríkjanna sína „helstu ógn“. Hann bendir á að verðbólga mælist mjög lág, og segir bankann fara of geyst í stýrivaxtahækkunum sínum.

Ummælin lét Trump falla í viðtali við viðskiptafréttastofu Fox, Fox Business Network, en hann hefur áður verið gagnrýninn á seðlabankann nýlega, nú síðast í síðustu viku þegar hann sagði bankann vera genginn af göflunum .

Trump sagðist óánægður með Jerome Powell, seðlabankastjórann sem hann skipaði sjálfur á síðasta ári, og sagði aðgerðir hans „gríðarlega íhaldssamar, til að orða það fallega,“.

Aðspurður um hvort Powell gæti misst vinnuna ef ákvarðanir hans reyndust vanhugsaðar, sagði Trump ótímabært að svara til um það, enda fjögur ár eftir af tímabili Powell. Lögin eru hinsvegar óskýr varðandi það hvort forsetinn geti beinlínis sagt seðlabankastjóra upp störfum.