Donald Trump, forseti Bandaríkjanna kallaði eftir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna myndi lækka stýrivexti enn frekar í færslu á Twitter síðu sinni en fyrr í dag voru voru þeir lækkaðir um hálft prósentustig til þess að bregðast við efnahagslegum áhrifum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í færslunni segir Trump að Seðlabankinn sé að lækka vexti en verði að veita hagkerfinu meiri slaka og það sé mikilvægt að peningastefnan verði í samræmi við það sem gengur og gerist í öðrum löndum.

„Við erum ekki að spila á jafningjagrundvelli. Þetta er ekki sanngjarnt fyrir Bandaríkin. Það er kominn tími á að seðlabankinn taki forystuna. Meiri slaka og meiri vaxtalækkanir.“

Þrátt fyrir að forsetar Bandaríkjanna hafa sögulega forðast að skipta sér að peningastefnu landsins hefur Trump marg oft tjáð sig um hana. Á síðustu árum hefur hann bæði sagt vexti í landinu of háa og of lága auk þess sem hann sagði fyrir nokkrum dögum að lækka þyrfti vexti um heilt prósentustig til þess að bregðast við efnahagsáhrifum kórónuveirunnar.