Aðfaranótt miðvikudags brutust út harkaleg mótmæli á götum Albuquerque í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum eftir kosningafund Donald Trumps sigurvegara forkosninga Repúblikanaflokksins og væntanlegs forsetaframbjóðanda.

Nýja Mexíkó er fjölmennasta ríki fólks af spænskumælandi uppruna í Bandaríkjunum. Ríkisstjóri fylkisins Susana Martinez hefur gagnrýnt harðlega ummæli Trump um innflytjendur og sett út á hugmyndir hans um að byggja vegg á landamærunum við Mexíkó. Hún er eini ríkisstjóri landsins af latneskum uppruna en tilheyrir jafnframt sama flokki og Trump.

Lögreglan beytti reyksprengjum á múginn

Átökin leiddu meðal annars til þess að glerdyr voru brotnar í inngangi að ráðstefnuhöllinni þar sem fundurinn átti sér stað, en Trump svaraði þeim með því að segja þeim að fara heim til mæðra sinna þegar þeir voru komnir inn í ráðstefnuhöllina.

Brást hann við einum mótmælanda með því að spyrja upphátt hve gamall hann væri, en svara svo sjálfur: „hann er enn í bleyju“.

Lögreglan þurfti að draga mótmælendur út úr ráðstefnuhöllinni en þeir héldu meðal annars á spjöldum þar sem Trump er kallaður fasisti. Klukkustundum saman eftir að Trump og um 4000 stuðningsmenn hans yfirgáfu ráðstefnuhöllina héldu um 100 mótmælendur áfram að grýta steinum, flöskum og öðru í lögregluna og þurfti hún að beita reyksprengjum til að dreifa hópnum.