*

mánudagur, 15. júlí 2019
Erlent 20. apríl 2018 14:57

Trump lækkar olíuverð

Bandaríkjaforseti gagnrýnir OPEC fyrir óeðlilega hátt olíuverð eftir að það náði hámarki frá 2014 og hefur verðið lækkað í kjölfarið.

Ritstjórn
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna.
epa

Olíuverð hefur fallið í dag á heimsmörkuðum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði það vera óeðlilega hátt. Brent hráolía hefur fallið um 54 sent frá því að markaðir lokuðu í gær, og er verðið þegar þetta er skrifað 73,24 dalir á fatið. West Texas hráolín er komin niður í 67,80 dali fatið, sem er 49 senta lækkun á einum degi.

Í gær náði olíuverð hæsta virði sínu frá því í nóvember árið 2014 þegar Brent hráolían náði 74,75 dölum fatið og WTI hráolían var í 69,56 dölum. Í tísti á samskiptamiðlinum Twitter, sagði forsetinn að OPEC væri enn og aftur að verki, og vísaði þar í að olíuverð hefur hækkað úr 67,11 dali fatið frá 6. apríl síðasliðnum.

„Með metmagni af olíu alls staðar, þar með talið í fulllestuðum skipum úti á hafi, þá er olíuverð óeðlilega Mjög Hátt! Ekki gott og verður ekki látið viðgangast,“ tísti Trump.

Bandarísk stjórnvöld hafa enga lögformlega leið til að hafa áhrif á olíuverð, nema með því að selja úr eigin birgðum, sem hefur verið gert við og við, til dæmis í kjölfar fellibylsins Harvey. Olíuráðherra Sádi Arabíu, Khalid al-Falih, sagði hins vegar að OPEC væri enn langt frá markmiðum sínum um verðhækkanir og það þyrfti að halda áfram að draga úr olíubirgðum í heiminum.

Samtökin hafa reynt að halda aftur af framleiðslu, í samstarfi við Rússland og fleiri ríki utan samtakanna, til þess að hækka verð. Goldman Sachs bankinn segir að eftirspurn eftir olíu hafi það sem af er ári haldist í við bjartsýnustu væntingar bankkans, og árið í ár verði líklega með mestu aukningu í olíuneyslu frá fjórða ársfjórðungi ársins 2010. Væntir hann að neyslan verði 2,55 milljón olíuföt á dag.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is