Bandarísk stjórnvöld hyggjast lækka skatta til að bregðast við áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19 sem rakin er til Wuhan borgar í Kína.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hyggjast íslensk stjórnvöld grípa til aðgerða, sem og stjórnvöld víðar um heim, til að mynda á Ítalíu , vegna víðtækra áhrifa útbreiðslu veirunnar á efnahagslíf landa með minnkandi eftirspurn, ferða- og samkomubönnum.

Meðal aðgerða sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað er lækkun tekjuskatts auk annars konar stuðnings við launafólk. Sagðist Trump ætla að lyfta hulunni af „mjög dramatískum“ aðgerðapakka til að hjálpa þeim sem verða verst úti vegna áhrifa veirunnar.

Steven Mnuchin, fjármálaráðherra segir aðgerðirnar beinast að því launafólki sem verða fyrir mestum áhrifum auk smárra fyrirtækja. Jafnframt verði aukið fjármagn sett í umferð til að hjálpa fólki og fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann meðan stjórnvöld glíma við útbreiðslu veirunnar.

„Efnahagslífið verður í góðum málum eftir ár,“ hefur FT eftir Mnuchin. „Þetta er ekki eins og fjármálakreppan“.