Sérhæfða yfirtökufélagið (SPAC) Digital World Acquisitions Corp, sem samþykkti að sameinast fjölmiðlafyrirtæki Donald Trump, hefur hækkað hlutfallslega mest í virði af öllum SPAC félögum, samkvæmt SPAC Research. Reuters greinir frá.

Í október gerði Digital World samning við Trump Media & Technology Group (TMTG) sem verðmat fyrirtækið á 875 milljónir dala, en getur þó farið upp í 1,7 milljarða dala. TMTG hyggst setja í loftið samfélagsmiðilinn TRUTH Social á næstunni.

Sjá einnig: Samfélagsmiðill Trump opnar í febrúar

Þrátt fyrir að gengi Digital World lækkað töluvert í gær þá hefur það rúmlega sjöfaldast frá frumútboði SPAC félagsins í september síðastliðnum. MP Materials Corp, sem sameinaðist sérhæfða yfirtökufélaginu Fortress Value Acquisition Corp árið 2020, er í öðru sæti en það félag hefur fjórfaldast að markaðsvirði.

Sé Digital World tekið úr myndinni þá hafa öll 114 SPAC félögin sem ekki hafa gengið frá samruna við annað fyrirtæki lækkað lítillega frá útboði.