Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að viðtökuferli Joe Biden verðandi forseta og ríkisstjórnar hans skuli hefjast. Forsetinn fráfarandi viðurkenndi þó ekki ósigur í kosningunum, og hét því að halda áfram að reyna að hnekkja niðurstöðu þeirra fyrir dómstólum.

Ferlið sem hefst þegar kosningar eru afstaðnar og ljóst er orðið að nýr forseti muni taka við embættinu næstkomandi janúar felst í því að sigurvegarinn og ríkisstjórn hans fá skrifstofurými í hvíta húsinu, milljónir dala til að aðstoða við ferlið, og embættismenn hefja að upplýsa hann um stöðu þeirra mála er hann þarf að vera meðvitaður um þegar hann tekur við.

Vaninn er að ferlið hefjist eftir að fráfarandi forseti viðurkennir ósigur formlega, sem vanalega gerist á kosninganótt eða daginn eftir. Formlega er það þó sjálfstæð ríkisstofnun kennd við almenna þjónustu (e. General Services Administration) sem ákvarðar hvenær niðurstöður kosninga séu orðnar ljósar, og hefur þá ferlið. Emily Murphy, forstjóri stofnunarinnar, hafði hinsvegar hingað til ekki sagt þær nægjanlega ljósar, en hún var skipuð í embætti af Trump árið 2017.

Þrjár vikur eru liðnar í dag síðan Bandaríkjamenn gengu til kosninga, og yfir tvær síðan úrslitin urðu ljós, en afar langan tíma tók að klára atkvæðatalningu í nokkrum fylkjum vegna gríðarlegs magns póstatkvæða sökum heimsfaraldursins.

Trump hefur haldið því fram að víðtæk kosningasvik hafi átt sér stað, og hann hafi í raun unnið kosningarnar, ef frá séu talin ólögleg atkvæði. Kosningateymi hans höfðaði í kjölfarið aragrúa dómsmála til að freista þess að hnekkja niðurstöðum einstakra fylkja, en Biden hlaut 306 kjörmenn á móti 232 fyrir Trump.

Flestum dómsmálunum hefur hinsvegar verið vísað frá, og þau sem eftir eru varða fæst nógu mörg atkvæði til að geta haft áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Umfjöllun Wall Street Journal .

Umfjöllun BBC .

Umfjöllun Financial Times .