Bandaríkin hafa ákveðið að stöðva fjárveitingar til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eftir að Donald Trump forseti sagði hana hafa gert alvarleg mistök í viðbrögðum sínum við kórónufaraldrinum og gagnrýndi tengsl hennar við Kína.

Árlegt framlag Bandaríkjanna til stofnunarinnar er um hálfur milljarður dala, jafnvirði um 70 milljarða íslenskra króna. Sameinuðu þjóðirnar gera kröfu um rúma 100 milljón dali frá Bandaríkjunum, en restin eru frjáls framlög. Til samanburðar benti Trump á að Kína greiði um 40 milljónir dala árlega.

Greiðslur verða stöðvaðar á meðan farið verður yfir þátt stofnunarinnar í að „hylma yfir“ faraldurinn og „alvarlegum misbrestum í viðbrögðum við honum“.

Þá sagði forsetinn að sem stærsti einstaki stuðningsaðili stofnunarinnar væri það skylda Bandaríkjanna að veita stofnuninni aðhald, en hún hefði ekki safnað, sannreynt og miðlað upplýsingum um faraldurinn á tímanlegan og gagnsæjan hátt.

Demókratar gagnrýndu ákvörðun forsetans og sökuðu hann um að villa um fyrir kjósendum – en forsetakosningar fara fram þar í landi næsta haust – og draga athygli frá sínum eigin misbrestum í viðbrögðum við faraldrinum. Bentu þeir meðal annars á að Trump hafi í upphafi sagt vírusinn myndu „hverfa eins og fyrir kraftaverk“.

Umfjöllun Financial Times .