*

mánudagur, 10. ágúst 2020
Erlent 14. mars 2020 11:26

Trump lýsir yfir neyðarástandi

Boðar efnahagslegar björgunaraðgerðir og fjöldaprufanir. Markaðir tóku vel í yfirlýsinguna.

Ritstjórn
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti yfir neyðarástandi vegna kórónufaraldursins á blaðamannafundi í gærkvöld.
epa

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti í gærkvöld yfir neyðarástandi og boðaði frekari aðgerðir í baráttunni gegn kórónufaraldrinum.

Auk neyðarástandsyfirlýsingarinnar – sem gefur forsetanum meðal annars víðtækar fjárveitingarheimildir – tilkynnti hann um samkomulag við þingflokk demókrata um efnahagslegar björgunaraðgerðir.

Hlutabréfamarkaðir tóku vel í yfirlýsingar forsetans, og við lokun markaða hafði S&P500 vísitalan hækkað um 9,3% frá opnun, en dagurinn á undan hafði verið sá versti síðan 1987.

Meðal einstakra aðgerða sem tilkynnt var um var að vextir af opinberum námslánum verða frystir, og ríkisstjórnin mun auka við varabirgðir sínar af olíu.

Forsetinn hafði áður slegið á áhyggjur af faraldrinum sem „gabb“ á vegum stjórnarandstöðuflokksins, demókrata, og sagt yfirvöld hafa „svo góða stjórn á honum“.

Prufunum fyrir veirunni verður fjölgað mikið, meðal annars með „lúgu“-prufunum (e. drive through) á bílastæðum stórra verslunarkeðja og á fleiri stöðum.

Fjöldi staðfestra tilfella er nú kominn í 1.678 vestanhafs samkvæmt þarlendum sóttvarnaryfirvöldum (CDC), og 41 hefur látist.

Umfjöllun Financial Times.

Umfjöllun BBC.

Stikkorð: Trump