Donald Trump, forseti Bandaríkjanna sagði hagvöxtur sem myndi leiða af stefnumálum hans myndi hjálpa heiminum öllum. Á vef Bloomberg segir að forsetinn sé með þessu að reyna að fella stefnu sína um Ameríku fyrst að alþjóðahyggju.

„Þegar Bandaríkin vaxa, þá vex heimurinn líka,“ sagði Trump í ræðu sinni á ársfundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos. Hann sagði jafnframt að hagsæld í Ameríku hefði skapað óteljandi störf í heiminum og að Bandaríkin styddu frjáls viðskipti svo lengi sem þau væru sanngjörn og gagnkvæm.

Trump er fyrsti forseti Bandaríkjanna til þess að sækja ársfund Alþjóðaefnahagsráðsins í 18 ár og lét finna fyrir nærveru sinni en hann tók með sér stóra sendinefnd skipaða ráðherrum ríkisstjórnar sinnar og æðstu embætismönnum Hvíta hússins.