Matt Kibbe
Matt Kibbe
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Hagfræðingurinn Matt Kibbe segir ein af viðbrögðum stuðningsmanna Demókrataflokksins í landinu við valdatöku Donalds Trump forseta, vera að þeir hafi uppgötvað á ný jákvæð áhrif fríverslunar.

„Það er auðvitað nokkuð fyndið að við erum að sjá að bandaríska vinstrið og demókratar hafa enduruppgötvað frjálsa verslun á hátt sem við höfum ekki séð áratugum saman,“ segir Kibbe sem hefur verið þekktur sem einn af skipuleggjendunum í Teboðshreyfingunni svokölluðu.

„Auðvitað er það að hluta til vegna flokkadrátta, ef Trump er á móti fríverslun, þá eru þeir með henni. En við skulum horfa framhjá kaldhæðni örlaganna og frekar nýta okkur það til að boða kosti fríverslunar meðal vinstrimanna. Demókratar voru áður, eins og Bill Clinton, flestir hlynntir fríverslun, en báðir flokkarnir hafa nú misst það niður. Eina leiðin til að snúa þeirri þróun við er að fræða fólk um ábatann af fríverslun, að það er hún sem skapar velsældina.“

Hélt fyrirlestur á fundi European Students for Liberty

Kibbe er formaður samtakanna Free the People, sem berst fyrir frjálshuga hugmyndum í Bandaríkjunum, en hann hefur verið þekktur álitsgjafi í bandarískum fjölmiðlum, allt frá Fox News til hægri til CNBC til vinstri. Hann starfaði sem forseti þrýstihópsins FreedomWorks á árunum 2004 til 2015 en þar áður m.a. sem aðalhagfræðingur Bandaríska verslunarráðsins, var í ráðgjafanefnd Repúblikanaflokksins um efnahagsmál og aðstoðarmaður þingmanns flokksins. Matt Kibbe og kona hans Terry voru stödd hér á landi í síðustu viku á ráðstefnu ESL, sem eru samtök frjálshuga stúdenta í Evrópu.

„Bakgrunnur minn er úr hagfræði en þegar ég fór að starfa í stjórnmálunum innan stjórnkerfisins í Washington-borg þá áttaði ég mig á því að stefna stjórnvalda fylgdi ekki því sem við vitum að er góð hagfræði, því stjórnmálin lúta öðrum lögmálum. Þau eru fyrst og fremst drifin áfram af almenningsálitinu,“ segir Kibbe, en á ráðstefnunni ræddu þau nýjar aðferðir til að ná til fólks með boðskap frjálshyggjunnar byggðar á persónulegri nálgun.

„Núna sjáum við þjóðernishyggju og sósíalisma vaxa, sem er mjög slæm þróun. Fólk sem hefur áhyggjur af störfum sínum vegna samkeppni frá ódýrari löndum, þá sérstaklega í framleiðsluiðnaði, er að kaupa hræðsluáróður um að ástandið sé einhverjum öðrum að kenna. Hvort sem það er Kína, Evrópusambandið eða hver svo sem það er, sem Trump elskar að geta kennt um.

Kibbe telur það vera of mikla bjartsýni að halda að Donald Trump sé með aðgerðum sínum í tollamálum fyrst og fremst að skapa Bandaríkjunum sterkari samningsstöðu.

„Ég held að hann hreinlega misskilji verslun í grundvallaratriðum, en hann virðist vera hreinræktaður verndartollarsinni. Af öllu því sem hann segir fram og til baka í svo mörgum málum er einangrunarstefna í heimsviðskiptum það mál sem hann snýr alltaf aftur til sömu niðurstöðunnar, það er meiri tollar. Mögulega er það vegna þess að Trump yfirfærir sína eigin reynslu af því að reka fyrirtæki yfir á flókið þjóðarhagkerfi, sem lýtur allt öðrum lögmálum.“

Kibbe gefur lítið fyrir ætlað óréttlæti sem bandarísk fyrirtæki búi við gagnvart keppinautum erlendis í gegnum núverandi fríverslunarsamninga.

„Það er hreinn skáldskapur. Trump talar nefnilega um viðskiptahalla eins og um raunverulegan halla sé að ræða, en út frá því sem við vitum um lögmál hagfræðinnar, þá er viðskiptahalli hluti af því sem gerist þegar hagkerfi vaxa. Það er þegar við getum keypt meira af vörum eða fáum inn fjárfestingar, en hann virðist misskilja það í grundvallaratriðum. Það er mikil bjartsýni að ætla að þetta sé allt til þess eins að skapa  betri samningsstöðu sem á endanum verði nýtt til að losa um hindranir við fríverslun, eins og hann segir stundum. Margir af helstu ráðgjöfum hans vonast til þess að hann muni bakka á endanum í þessum tolladeilum sínum. Hingað til virðist hann þó eingöngu herðast í afstöðu sinni sem er hættuleg staða. Því eins og franski hagfræðingurinn Frederic Bastiat sagði, ef vörur fara ekki yfir landamæri, munu herir gera það.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .