Kappræður frambjóðenda til forsetakosninga í Bandaríkjunum einkenndust af persónulegum rógburði. Skotin flugu á milli frambjóðendanna tveggja, Hillary Clinton, sem er frambjóðandi Demókrataflokksins og Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana. Í kappræðunum sagði Trump meðal annars að ef hann kæmist til valda myndi hann vilja láta skipa sérstakan saksóknara til þess að fara yfir feril mótframbjóðanda síns.

Frambjóðendurnir tveir, neituðu að takast í hendur, og setti það tóninn fyrir það sem eftir kom.

Í bágri stöðu vegna myndbands

Trump stóð höllum fæti fyrir kappræðurnar vegna myndbandsupptöku sem náðist af kappanum árið 2004, þegar hann talaði gífurlega niðrandi til kvenna og í kjölfarið hafa skapast miklar umræður um afstöðu hans til kvenna.

Fyrir fundinn, þá hélt Trump hins vegar blaðamannafund, þar sem að hann birtist með fórnarlömbum áreitis frá Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna.

Persónulegar árásir

Nokkur samstaða er um það meðal fjölmiðla að kappræðurnar hafi einkennst af persónulegum árásum og hafi fært umræður á lægra plan, þar sem ekki var tekist á um málefni eins og vaninn er, heldur var farið í persónulegar árásir. Trump talaði meðal annars um að hann myndi sækja Clinton til saka, ef hann yrði kosinn forseti og Clinton sakaði Trump um að vera kvenhatara og rasista.

Samkvæmt könnun CNN/ORC þá töldu um 57% að Clinton hafi sigrað kappræðurnar en 34% töldu Trump hafa verið sigurvegara kvöldsins. Þrátt fyrir það þá tekur CNN fram að fleiri demókratar horfi á kappræðurnar, því séu þær ekki fullkomlega marktækar. Það skýtur þó skökku við hve lítil umræða fór fram um málefni og mikil var um persónulega hagi frambjóðenda.