Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur allt að því bannfært Steve Bannon fyrrum kosningastjóra og yfirstefnumótanda sinn eftir að hörð gagnrýni er höfð eftir hinum síðarnefnda í nýrri bók eftir Michael Wolff sem fjallar um forsetann frá kjördegi fram til október 2017. The Wall Street Journal fjallar um málið .

Í bókinni er vitnað í Bannon þar sem hann gagnrýnir lykilstarfsmenn Trump sem margir hverjir eru fjölskyldumeðlimir hans. Bannon segir meðal annars í bókinni að dóttir forsetans Ivanka Trump hafi álíka gáfur og múrsteinn eða „dumb as a brick“ eins og það útleggst á frummálinu.

Bannon segir einnig að fundur sem átti sér stað hjá háttsettum starfsmönnum í framboði Trumps og rússneskum lögfræðingi hafa verið landráð af hálfu starfsmanna Trump.

Lögfræðingur Trump hefur sent Bannon bréf þar sem þess er krafist að hann láti af hegðun sinni og hætti að gera lítiið úr forsetanum og fjölskyldu hans en einnig hefur forsetinn látið frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir Bannon hafi misst vitið og gerir lítið úr þætti hans í kosningabaráttunni. Hvíta húsið hefur jafnframt sagt bókina uppfulla af rangindum og villandi frásögnum.

New York Magazine birti úrdrátt úr fyrrnefndri bók í gær en þar kemur einnig fram að Trump og starfsmenn framboðsins hafi aldrei búist við að vinna kosningarnar og jafnvel ekki viljað vinna þær. Úrdráttinn má nálgast hér .