Donald Trump og Ted Cruz tókust á í viðræðum sem fóru fram í nótt, en þessir tveir eru núna líklegastir til að hljóta tilnefningu sem frambjóðandi Republikanaflokksins til forseta Bandaríkjanna.

Meðal þess sem Trump sagði um Cruz var að hann væri ekki kjörgengur til að verða forseti Bandaríkjanna. Faðir Ted Cruz er frá Kúbu og móðir hans er frá Bandaríkjunum, en hann fæddist í Kanada. Stjórnarskrá Bandaríkjanna segir að til að vera kjörgengur til embættis forseta þá verði viðkomandi að vera fæddur í Bandaríkjunum.

Cruz sakaði Trump um að henda fram þessari spurningu einungis til að sá fræjum óvissu, en Cruz hefur verið að draga á hann í skoðanakönnunum. Hann sagði einnig að hann hefði lært stjórnskipunarrétt til fjölda ára og að hann ætlaði ekki að taka við lögfræðiaðstoð frá Trump.

Spurningum um kjörgengi og að frambjóðandi hafi verið fæddur í Bandaríkjunum hefur skotið upp ítrekað á síðustu árum. John McCain var spurður út í þetta þegar hann bauð sig til forseta árið 2008, en hann fæddist í Panama. Þar sem hann fæddist innan landsvæðis herstöðvar Bandaríkjanna þar í landi varð umræðan þó skammlíf. Donald Trump óskaði ítrekað eftir því að Barack Obama myndi framvísa fæðingarskírteini sínu til að sýna fram á að hann hefði í raun fæðst í Bandaríkjunum. Obama neytaði þeirra ósk en lögfræðingar Hvíta hússins fóru þó yfir það og staðreyndu að hann hefði í raun fæðst í Bandaríkjunum (Hawaii)

Fyrstu kosningar til að hljóta tilnefningu Republikaflokksins munu fara fram í Iowa þann 1. febúar nk.