Donald Trump forseti Bandaríkjanna gaf það út í dag að hann myndi rifta samningi sem Barack Obama forveri hans í starfi hafði gert við stjórnvöld á Kúbu árið 2016. Sagði Trump að hann myndi setja þrengri skorður á ferðalög og flutning fjármagns til landsins. Þrátt fyrir það verða engar lykilbreytingar á stjórnmála- og viðskiptatengslum landanna auk þess sem sendiráð Bandaríkjanna í Havana verður þar áfram.

Í ræðu sem Trump hélt fyrir kúbverska innflytjendur í Miami í dag sagði hann samningin sem Obama hafi gert við „grimmdarstjórn" Raul Castro hafi verið "skelfilegur" og væri ekki til þess að þjóna hagsmunum Bandaríkjanna.

Sagði Trump einnig að hagnaður af fjárfestingum og ferðamannaiðnaði í landinu færi beint til hersins og hann vildi ekki að dollarinn væri að styrkja við hernaðarbrölt og kúgun íbúa á Kúbu.