Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sakar forvera sinn Barack Obama um að hafa hlerað síma sinn í nýafstöðnum forsetakosningum. Þetta fullyrðir Trump á Twitter og kallar Obama „sjúkan“ náunga.

„Hryllilegt! Ég var að finna það út að Obama hleraði mig í Trump turninum rétt áður en ég vann. Fann ekkert. Þetta er McCarthy-ismi!“ skrifaði Trump fyrst. McCarthy-ismi, kenndur við fyrrum þingmanninn James McCarthy, felst í því að koma með ósanngjarnar og órökstuddar ásakanir, t.d. um landráð, án nokkurra sönnunargagna.

Trump hélt áfram og spurði: „ Er löglegt fyrir sitjandi forseta að hlera forsetakosningar áður en kosið er? Hafnað af dómstól áður. NÝR LÁGPUNKTUR! Ég skal veðja að góður lögmaður gæti gert frábært mál út úr þeirri staðreynd að Obama forseti var að hlera símana mína í október, rétt fyrir kosninguna!“

Trump endaði þetta síðan á þessum nótum:

„Hversu lágt hefur Obama forseti lagst með því að hlera símann minn í heilögum kosningum? Þetta er Nixon/Watergate. Slæmur (eða sjúkur) náungi!“

Þess má geta að bæði Obama og eiginkona hans Michelle Obama gagnrýndu Trump harðlega í kosningabaráttunni. Þegar Trump hitti Obama eftir kosningasigurinn virtist þeim þó koma ágætlega saman og talaði Trump um það í kjölfar samtals þeirra að forsetinn fráfarandi væri allt öðruvísi náungi en hann hefði búist við. Ekki er tónninn jafn vinalegur núna.