Bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump sagði í dag að há laun forstjóra fyrirtækja þar í landi væru „brandari“ og „skammarleg“. Væru launin oft samþykkt af stjórnum sem væru fullar af vinum forstjórans.

Trump er fremstur í kapphlaupinu um að verða forsetaefni Repúblíkanaflokksins, en þessi umdeildi athafnamaður hefur vakið mikla athygli í kosningabaráttu sinni. Sjálfur er hann metinn á 8,7 milljarða Bandaríkjadollara.

Í viðtali við „Face the Nation“ á CBS sjónvarpsstöðinni sagði Trump að erfitt væri að ráða við launin hjá stórfyrirtækjum vegna þess að stjórnir þeirra væru oft ekki óháðar.

„Þetta er skammarlegt. Stundum ráða stjórnirnar en ég myndi halda að það sé sjaldnar en í 10 prósentum tilfella. Þú sérð þessa gæja fá risastórar upphæðir. Þetta er alger brandari,“ sagði Trump.

Þá nefndi hann sérstaklega verslunarkeðjuna Macy‘s, sem fjarlægði vörur Trump úr verslunum sínum í júlí eftir að hann lýsti mexíkóskum innflytjendum sem eiturlyfjasmyglurum og nauðgurum.