Hótelfyrirtæki í eigu Trump fjölskyldunnar hefur náð samkomulagi um 375 milljóna dala, eða um 49,4 milljarða króna, sölu á Trump International Hotel sem er staðsett rétt hjá Hvíta húsinu í Washington.

Kaupandinn er fjárfestingafélagið CGI Merchangt Group. Nánar tiltekið er CGI að kaupa réttinn að hótelrekstri í byggingunni og tekur við af Trump fjölskyldunni sem leigutaki. Hótelbyggingin er í eigu bandaríska ríkissjóðsins. Leigusamningurinn nær með öllum framlengingum hátt í hundrað ár. Gamla pósthúsið (e. Old Post Office) í Washington var áður til húsa í byggingunni.

Fyrirhugað er að breyta nafninu á hótelinu og taka það inn í Waldorf Astoria lúxuskeðjuna, sem tilheyrir Hilton. Talið er að salan gangi í gegn á fyrsta fjórðungi 2022.

Þingnefnd hefur haft leigusamninginn Trump Organization og ríkisstofnunarinnar General Services Administration (GSA) á Gamla pósthúsinu til skoðunar. Leigusamningurinn var undirritaður áður en Trump tók við forsetaembættinu en þingnefndin kannar nú hversu vel Trump hélt utan um mögulega hagsmunaárekstra á forsetatíð sinni, að því er kemur framí frétt WSJ .

Nefndin sagði að hótelið hafi tapað meira en 70 milljónum dala frá opnun árið 2016 og út næsta ár sem leiddi til þess að Trump Organization þurfti að leggja hótelinu til 24 milljónir dala. Trump fjölskyldan hefur hins vegar vefengt niðurstöður nefndarinnar.