Donald Trump Bandaríkjaforseti mun krefjast þess að kínverska fyrirtækið Bytedance selji eignarhlut sinn í samfélagsmiðlinum TikTok sem bandarískir embættismenn hafa metið sem þjóðaröryggisáhættu, samkvæmt heimildum WSJ . Microsoft er sagt vera í viðræðum um að kaupa starfsemi TikTok í Bandaríkjunum, að því er kemur fram í frétt Bloomberg .

Embættismenn hafa haft áhyggjur af því að TikTok safni gögnum um Bandaríkjamenn og deili þeim með kínverskum stjórnvöldum. TikTok hefur haldið því fram að fyrirtækið myndi aldrei gera slíkt. Embættismennirnir hafa einnig haft áhyggjur af því að kínversk yfirvöld muni nota TikTok sem vettvang til að dreifa áróðri eða ritskoða efni samfélagsmiðilsins.

Þetta yrði sjöunda skiptið sem forseti Bandaríkjanna kemur í veg fyrir kaupsamning eða gefur tilskipun um að fyritæki selji ákveðna starfsemi frá því að fulltrúadeild Bandaríkjaþings veitti forsetaembættinu þessa heimild árið 1988. Trump hefur nýtt þessa heimild þrisvar sinnum.

Árið 2017 kom hann í veg fyrir að fyrirtæki með tengsl við kínverska ríkið myndi kaupa bandaríska örgjörvaframleiðandann Lattice fyrir 1,3 milljarða dollara. Árið 2018 kom hann í veg fyrir að singapúrski örgjörvaframleiðandinn Broadcom myndi taka yfir bandaríska samkeppnisaðila sinn Qualcomm. Í mars skipaði Trump kínversku félagi að selja eignarhlut sinn í hugbúnaðarfyrirtækinu StayNTouch, og sagði að hann hefði „trúverðugar heimildir“ um að það hefði „hótað að skaða þjóðaröryggi Bandaríkjanna“.