*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Erlent 24. mars 2020 10:10

Trump springur á limminu

Bandaríkjaforseti íhugar að aflétta varúðarráðstöfunum vegna útbreiðslu veirunnar til að ýta við hagkerfinu.

Ritstjórn
epa

Donald Trump forseti Bandaríkjanna er sagður íhuga að aflétta varúðarráðstöfunum um fjarlægð milli fólks og samkomubönn fyrr en áður var áætlað, eða strax í næstu viku, til að lyfta upp hagkerfinu þrátt fyrir útbreiðslu kórónuveirusýkingar um landið.

„Við ætlum ekki að láta lækninguna vera verri en vandamálið,“ sagði Trump á fréttamannafundi í gær, líkt og hann hefur einnig tíst á samfélasmiðlinum Twitter. „Bandaríkin munu aftur og fljótt verða opin fyrir viðskipti á ný. Þetta verður ekki svo löng bið.“

Sagði hann þá að ákvörðun um opnun landsins myndi liggja fyrir þegar 15 daga tímabil varúðarráðstafana sem sem tryggja eiga fjarlægð og minnkun samskipta rennur út, en þær voru settar á mánudaginn 16. mars síðastliðinn.

Trump hefur þó lýst miklum áhyggjum af áhrifum varúðarráðstafananna á hagkerfið en hlutabréfamarkaðir hafa farið illa bæði út úr útbreiðslunni sem og töfum á samþykkt björgunaraðgerða fyrir hagkerfið í þinginu.

Kröfur Demókrata tafið samþykkt efnahagsaðgerða

Efnahagsaðgerðirnar sem nema eiga 2 þúsund milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 284 milljón milljörðum í íslenskum krónum, það er 284 billjarðar króna, eru nú í umræðum á Bandaríkjaþingi. Í nótt virðist sem að Demókratar sem stjórna neðri deildinni, fulltrúaráðinu, og nógu stóran hluta efri deildar til að hindra hraða meðferð, hefðu gefið eftir sumar kröfur sínar að því er NPR greinir frá, svo að samkomulag gæti verið að nást um aðgerðirnar við flokksmenn Trump í Repúblikanaflokknum.

Reglurnar fela meðal annars í sér að allir Bandaríkjamenn eiga að draga úr óþarfa ferðalögum, forðast veitingastaði þar sem sest er niður og samkomuhaldi fleiri en tíu manna í einu. Því til viðbótar hafa ríkisstjórar og borgarstjórar komið víða á frekari varúðarráðstöfunum eins og að loka skólum og mörgum verslunum.

Upphaflega áttu reglurnar að gilda í 15 daga til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 sem breiðst hefur um heiminn frá upprunaborginni Wuhan í Kína, en Trump hefur víða verið gagnrýndur fyrir að vísa iðulega til hennar sem Kínaveirunnar.

Ungt fólk og heilbrigt þurfi mögulega ekki að sýna sömu varkárni og áhættuhópar

Stjórnvöld í Hvíta húsinu standa hins vegar nú í viðræðum við ráðgjafa og leiðtoga í viðskiptalífinu sem vilja ýta á Trump að opna hagkerfið, sem nú stendur frammi fyrir atvinnuleysi víða um land, fyrr.

Forsetinn hefur þegar sagt að hann vilji opna hagkerfið eins fljótt og auðið er á ný, en viðræðurnar nú snúa um það hvort losa eigi um eða breyta 15 daga reglunum sem stjórnin setti á í síðustu viku.

Sérfræðingar í heilbrigðismálum hafa hins vegar varað við því að losa um hömlurnar, þar sem þær séu nauðsynlegar, að minnsta kosti þangað til Bandaríkin geta komið á skilvirku prófanakerfi til að finna og einangra sjúklinga. Hins vegar sé víðtækar prófanir ekki á sjóndeildarhringnum sem stendur enda skortur er á prófum og öðrum búnaði og innviðum sem til þarf.

Í viðræðunum nú er verið að skoða að reyna að takmarka reglurnar við fólk í áhættuhópum, eins og eldri borgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þeir ættu þá að sýna meiri varkárni heldur en ungt og heilbrigt fólk. Breyting í þá áttina muni þó ekki taka gildi strax eftir 15 daga tímabilið, heldur séu stjórnvöld að stíga varlega til jarðar að því er WSJ hefur eftir embættismanni.