Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í sjónvarpsávarpi frá hvíta húsinu í dag að hann og forseti Mexíkó, Enrique Pena Nieto, sem kom fram í ávarpinu, hefðu náð saman um skilmála nýs samnings, sem Trump vill að taki við af hinum núgildandi norður-ameríska fríverslunarsamningi NAFTA.

Töluvert vantaði þó upp á smáatriðin, og enn er ekkert í hendi um endanlega niðurstöðu.

Trump lýsti skilmálunum sem „ótrúlegum“ og sagði þá „mun sanngjarnari“ en skilmála NAFTA.

Nieto lagði áherslu á að nýr samningur innihéldi einnig Kanada, sem er þriðji aðilinn að núgildandi samningi. Trump sagðist hinsvegar vera að íhuga kostina við aðskilinn samning við Kanada.

Það litla haldbæra sem þó kom fram var að löndin tvö samþykktu að þrír fjórðu hlutar vöru þyrftu að vera framleiddir í Bandaríkjunum og Mexíkó til að hún væri skattfrjáls, en það er hærra hlutfall en í núverandi samningi.

Þá samþykktu þeir að 40-45% af hverju farartæki þyrfti að vera framleitt af verkamönnum með amk 1700 krónur í laun á tímann, sem er hugsað til þess að bílaframleiðendur framleiði ekki eingöngu í Mexíkó, þar sem laun eru mun lægri en í Bandaríkjunum.

Embættismenn vilja helst klára nýja samninginn áður en nýkjörinn forseti Mexíkó, Andres Manuel Lopez Obrador, tekur við í Desember, samkvæmt frétt BBC .

Til þess að það náist þurfa samningamenn að leggja fullkláraðan samning fyrir Bandaríkjaþing að minnsta kosti 90 dögum fyrr. Þingflokkur Repúblíkana, sem almennt eru stuðningsmenn fríverslunar, hafa verið að þrýsta á ríkisstjórn Trump um að semja, en þeir segja núgildandi samning hafa verið bændum og fleirum innan Bandaríkjanna hagfelldan.