*

fimmtudagur, 3. desember 2020
Erlent 10. júlí 2018 10:40

Trump tilnefnir Kavanaugh

Trump hefur tilnefnt Brett Kavanaugh, fyrsta val Repúblikanaflokksins og íhaldsmann, sem næsta hæstaréttardómara.

Ritstjórn
Brett Kavanaugh, dómari við áfrýjunardómstól District of Columbia, tekur í höndina á Donald Trump, bandaríkjaforseta.
european pressphoto agency

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilnefnt Brett Kavanaugh, dómara við áfrýjunardómstól District of Columbia, til að fylla sæti Anthony Kennedy í hæstarétti. Hinn 81 árs gamli Kennedy sagði af sér í lok júní, og losaði þannig um annað hæstaréttarsætið í forsetatíð Trump.

Kennedy hafði lengi veitt dómstólnum, sem samanstendur af 9 dómurum, ákveðið jafnvægi, þar sem hann tók stundum afstöðu með íhaldssamari hluta dómaranna, en stundum með þeim frjálslyndari. Kavanaugh þykir hinsvegar íhaldssamari og mun því gefa íhaldsmönnum yfirhöndina.

Kavanaugh var sá sem Repúblikanaflokkurinn, flokkur Trump, vildi helst sjá taka við sætinu, en heimildarmenn Wall Street Journal segja að með valinu hafi Trump hamið löngun sína til að velja umdeildari kost.

Öldungadeild bandaríkjaþings þarf nú að staðfesta Kavanaugh til að Trump geti skipað hann í sætið. Ráðgjafar Trump, sem mældu með Kavanaugh, munu hafa lagt áherslu á að hann ætti góða möguleika á að komast í gegn um staðfestingarferlið.

Kavanaugh sagði í ræðu sinni við tilefnið „engan forseta hafa ráðfært sig við jafn marga, frá jafn ólíkum bakgrunni, við tilnefningu til hæstaréttar áður“, og hét því að taka hverju dómsmáli með opnum hug.