Val Donald Trump á nokkrum ráðherrum og yfirmönnum stofnana í stjórn sinni hefur vakið athygli en í þremur tilvikum er að ræða einstaklinga sem hafa í það minnsta verið mjög gagnrýnir á þær stofnanir sem þeir munu nú leiða.

Má þar nefna val hans á Scott Pruitt sem yfirmanns umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, EPA. Einnig má nefna val hans á Ben Carson sem yfirmanni húsnæðismálastofnunar Bandaríkjanna og Betsy DeVos sem verður menntamálaráðherra.

Gagnrýnendur opinberra skóla og velferðarkerfis leiða mennta og húsnæðismál

Sú síðastnefnda hefur verið ötull baráttumaður fyrir ávísunarkerfi í skólamálum, en gagnrýnendur slíkra hugmynda segja þær grafa undan opinbera skólakerfinu, að því er fram kemur í Washington Post .

Ben Carson, sem lýsti yfir stuðningi við Trump eftir að hann dró sig út úr baráttunni fyrir tilnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins, hefur verið gagnrýninn á velferðarkerfin sem sú stofnun sinnir.

Kærði stofnunina sem hann nú mun leiða

Scott Pruitt, ríkissaksóknari Oklahoma, hefur nýtt stóran hluta af tíma sínum í kæru saksóknara sína og annarra ríkja Bandaríkjanna gegn stefnu Obama um hreina orku, svokallað Clean Power Plan, sem snýst um að reyna að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda frá raforkuiðnaðinum.

Hann hefur einnig kært, ásamt öðrum saksóknurum, reglugerð stofnunarinnar sem snýst um að draga úr útblástri metangas úr olíu og gasiðnaðinum.

„Í allt of langan tíma hefur EPA eytt skattpeningum í stefnumörkun gegn orkuframleiðslu sem farið hefur algerlega úr böndunum og eyðilagt milljónir starfa, á sama tíma og hún hefur grafið undan okkar frábæru bændum og mörgum öðrum fyrirtækjum og iðnaði,“ segir í yfirlýsingu Trump þar sem hann tilkynnir um val sitt á Scott Pruitt þó hún segi einnig að ríkisstjórn hans:

„Hafi sterka trú á náttúruvernd og að Scott Pruitt muni vera öflugur talsmaður fyrir því á sama tíma og hann styðji við störf, öryggi og tækifæri.“