Forseti Bandaríkjanna hefur frá upphafi skipað bankastjóra Alþjóðabankans og eftir að Jim Yong Kim sagði óvænt stöðu sinni lausri í upphafi árs kom það í hlut Donald Trump að velja eftirmann hans í stöðuna. Fyrir valinu var David Robert Malpass, bandarískur hagfræðingur, sem starfar sem forstöðumaður alþjóðamála (e. Under secretary of the Treasury for International Affairs) í fjármálaráðuneyti ríkisstjórnar Trumps.

Malpass var efnahagsráðgjafi Trumps í forsetakosningunum 2016 og var ráðinn til fjármálaráðuneytisins stuttu eftir að Trump tók við embætti forseta. Hann hafði áður starfað í Washington, fyrst í fjármálaráðuneytinu undir Ronald Regan og seinna í forsetatíð George H.W. Bush.

Það sem vakið hefur mesta athygli er þó 15 ára ferill hans sem aðalhagfræðingur fjárfestingabankans Bear Stearns, og þá sér í lagi feilsporinn. Malpass var aðalhagfræðingur bankans allt þar fjárfestingabankinn JP Morgan festi kaup á Bear Stearns fyrir slikk í mars 2008 þegar ljóst var að honum yrði ekki bjargað af Seðlabanka Bandaríkjanna.

Larry Kudlow, aðalráðgjafi Trumps í efnahagsmálum, sá upphaflega um að ráða Malpass til Bear Stearns á tíunda áratuginum. Kudlow segir í samtali við Financial Times að Malpass sé rétti maðurinn til að stýra Alþjóðabankanum, en hlutverk bankans er að styðja við fátækustu ríki veraldar. „Lágir skattar til að örva vöxt, lágmarks regluverk til að örva vöxt, stöðugur gjaldmiðill til að örva vöxt: Þetta er það sem Malpass mun leggja áherslu á sem bankastjóri,“ segir Kudlow.

Alþjóðaviðskiptapressan hefur fjallað mikið um skrif Malpass í aðdraganda fjármálahrunsins. Sér í lagi grein í Wall Street Journal, sem birtist daginn eftir að tveir vogunarsjóðir Bear Stearns urðu gjaldþrota í ágúst 2007. Þar fullyrti Malpass að áhyggjur manna af því að vandræði á skulda- og fasteignamarkaði kynnu að hafa áhrif á raunhagkerfið væru stórlega ýktar. „Framleiðsluhagkerfið (e. Main Street) er ekki svo viðkvæmt, fasteigna- og skuldamarkaðir eru hvorki stór hluti af bandaríska hagkerfinu né mikilvægir í atvinnusköpun,“ en svo mörg voru orð Malpass korter fyrir hrun.

David Malpass er 62 ára gamall og lauk fyrst BA gráðu í eðlisfræði við háskólan í Colorado og seinna MBA námi við Háskólann í Denver. Þá lagði hann stund á alþjóðahagfræði við Georgetown University. Malpass talar spænsku, rússnesku og frönsku.