Donald J. Trump Bandaríkjaforseti vill auka hernaðarútgjöld Bandaríkjanna um allt að 10%. Þingið hefur þó stjórn á fjárhagsáætlun Bandaríkjanna og þyrfti Trump því að sannfæra þingið. Aftur á móti vill Trump skera niður þegar kemur að þróunaraðstoð. Þetta kemur fram í frétt AFP fréttastofunnar.

Trump kynnti fjárhagsáætlun sína í grófum dráttum í gær, þar sem var lögð mest áhersla á öryggi almennings og þjóðaröryggi. Samkvæmt heimildarmanni AFP munu hernaðarútgjöld aukast um allt að 54 milljörðum dollara. Einnig verði skorið niður til annarra málaflokka. Bandaríkin eyða nú þegar langmest af öllum ríkjum í herinn.

„Flestar ríkisstofnanir munu fá minna fjármagn,“ er haft eftir heimildarmanninum sem starfar fyrir ríkisstjórnina. Hann bætti við að mesti niðurskurðurinn yrði í þróunaraðstoð.

Eins og kemur fram hér að ofan þarf þingið að samþykkja tillögur Trump um aukin útgjöld til hernaðarmála, en þau miða að því að uppfylla kosningaloforð Trump, að byggja vegg á landamærum Mexíkó, að flytja úr landi ólöglega innflytjendur og tortíma hryðjuverkamönnum.