Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sótti hart að Kim Jong Un, leiðtoga Norður Kóreu í ræðu sem flutt var af tilefni heimsóknar hins fyrrnefnda til Suður Kóreu. Sagði Trump að núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna væri gjörólík fyrri stjórnum að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal.

„Ekki vanmeta okkur og ekki láta reyna á viðbrögð okkar,“ hefur blaðið eftir ræðu forsetans en hann kallaði eftir því að Kim Jong Un léti af öllum fyrirætlunum um þróun kjarnorkuvopna.

„Norður Kórea er ekki paradísin sem afi þinn sá fyrir sér – það er helvíti sem engin manneskja á skilið,“ sagði Trump og bætti við að Bandaríkin byðu upp á leið að mun betri framtíð fyrir landið sem hefðist á því að þróun á flugskeytum og kjarnorkuvæðingu yrði hætt.

„Vopnin sem þið eruð að þróa eru ekki að gera ykkur öruggari,“ sagði Trump. „Þau eru að setja stjórn ykkar í bráða hættu. Hvert skref sem þið fetið á þessari braut eykur hættuna sem þið standið frammi fyrir.“

Þá sagði kallaði hann jafnframt eftir því að Kínverjar leggðu meira af mörkum til þess að setja pressu á Norður Kóreu um að hætta kjarnorkuvopnaþróun. Blaðið segir jafnframt frá því að háttsettir embættismenn úr Hvíta húsinu að Kínverjar þurfi að skera á fjármálaleg tengsl sín við Norður Kóreu.

Heimsókn forsetans til Suður Kóreu er hluti af 10 daga ferðalagi hans um Asíu en hann heimsækir næst Kína og hittir forseta landsins Xi Jinping.