Margrét segir ljóst að traust á stétt endurskoðenda hafi beðið hnekki óháð því hvort endurskoðendur hafi raunverulega brugðist eða ekki.  Starf endurskoðandans grundvallast á því trausti sem borið er til hans. Bregðist það er brýnt að vinna það upp aftur. Slíkt tekur langan tíma og gerist fyrst og fremst með vandaðri vinnu endurskoðandans þó svo fræðsla og kynning hjálpi vissulega til.  Stærra mál sé hins vegar sá almenni trúnaðarbrestur sem orðið hefur í samfélaginu.

„Ég vil alls ekki gera lítið úr þeim erfiðleikum sem hrunið veldur íslensku þjóðarbúi. Þeir eru ærnir og það mun taka á að sigrast á þeim.  Það er hins vegar smámál að vinna okkur út úr þeim efnahagslegu örðugleikum sem við glímum við, samanborið við það að endurskapa almennan trúnað og traust í landinu.  Við skuldum börnunum okkar það að skila þeim samfélagi þar sem ríkir samstaða og trúnaður. Slíkt samfélag byggjum við ekki með því að níða niður skóinn hvert af öðru og reyna að gera allt  sem gert er tortryggilegt. Ábyrgð stjórnmálamanna og fjölmiðla er mikil í þessu sambandi og oft finnst mér þeir aðilar því miður ala á úlfúð og tortryggni í samfélaginu.“

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð hér á vefnum.