Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að trúnaðarbrestur hafi átt sér stað þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði ósatt í viðtali við sænska sjónvarpið. Vísar hann þar til viðtals sem sýnt var í hinum fræga Kastljósþætti um aflandsfélög. Þetta kemur fram í Helgarútgáfunni á RÚV .

Vísar hann til þess er Sigmundur Davíð var spurður út í tengsl sín við aflandsfélagið Wintris, en þar neitaði hann m.a. að hafa selt hlut sinn í félaginu til eiginkonu sinnar á einn dollara.

„Forsætisráðherrann sagði ósatt og það í rauninni er slæmt því allt sem í framhaldi kemur er dregið í efa. Og ég held að þar hafi orðið trúnaðarbrestur, að forsætisráðherra treysti sér ekki til að segja satt á því augnabliki, þegar hann er bara spurður hreint út. Ég held að þar hljóti lexían að vera sú að það er enginn valkostur að segja ósatt um svona hluti. Það er enginn valkostur að leyna hagsmunum tengds aðila í svona stóru máli,“ sagði Frosti í Helgarútgáfunni.

Þá bætti Frosti því við að tafarlaust þyrfti að hefja rannsókn af hálfu hins opinbera á tengslum Íslendinga við aflandsfélög.