„Dag einn vorið 2009 var fréttamaður Stöðvar 2 ásamt kvikmyndatökumanni á útleið úr fjármálaeftirlitinu eftir að hafa tekið viðtal við Gunnar Þ. Andersen sem þá var nýorðinn forstjóri. Rak þá fréttamaðurinn augu í gráa möppu sem hafði verið lögð ofan á blómapott í anddyrinu á jarðhæðinni. „Hvað er þetta?“ sagði hann við tökumanninn. Fréttamaðurinn fletti möppunni lauslega og rak upp stór augu. Hún hafði að geyma upplýsingar sem augljóslega átti að ríkja trúnaður um, svo sem verklagsreglur við húsleitir. Þar voru einnig nöfn einstaklinga og fyrirtækja sem fyrirhugað var að framkvæma húsleit hjá."

Þetta segir í inngangi bókarinnar Andersen-skjölin, eftir Eggert Skúlason, ritstjóra DV. Í bókinni kemur fram að í umræddri möppu hafi verið að finna nöfn margra þekktra einstaklinga, sem fréttamaðurinn hafi þekkt til.

Sagðir hafa tekið upp upplýsingarnar

„Hann horfði í augun á kvikmyndatökumanninum og þeir kinkuðu kolli. Tökumaðurinn hóf að mynda síðurnar í möppunni og að því loknu fóru þeir upp í afgreiðslu eftirlitsins og afhentu möppuna. Fréttamaðurinn vissi að til þeirra sást í öryggismyndavélunum við innganginn. Það var mál sem yrði að fást við síðar."

Næst kemur fram að fréttamaðurinn og tökumaðurinn hafi þar á eftir haldið upp á fréttastofu Stöðvar 2, þar sem vöngum var velt yfir hvað skyldi gert við upplýsingarnar.

„Giftudrjúg ákvörðun" að semja við fjármálaeftirlitið

Hvort átti að gera frétt um viðkvæm trúnaðargögn á glámbekk hjá fjármálaeftirlitinu – eða vinna margar fréttir upp úr möppunni? Eftir að hafa ráðfært sig við vaktstjóra og miklar bollaleggingar inni á ritstjórn hringdi fréttamaðurinn að lokum í fjármálaeftirlitið og lét starfsmann þar vita af því að hann hefði innihald möppunnar undir höndum. Fréttamaðurinn sagðist reiðubúinn að „gleyma“ möppunni gegn því að fjármálaeftirlitið ábyrgðist „gott samstarf “ við fréttaöflun. Samþykkti fjármálaeftirlitið það. Þetta reyndist giftudrjúg ákvörðun fyrir fréttastofu Stöðvar 2.