„Starfsfólki og áhöfnum WOW air er ekki heimilt að tjá sig um einstök atvik eða um farþega sem ferðast með WOW air,“ segir í skriflegu svari Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltúra Wow air, til Viðskiptablaðsins.

DV greindi frá því í gær að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hefði kastað upp í ferð utanríkismálanefndar Alþingis með Wow air til Washington. Hefur því verið haldið fram að þingmaðurinn hafi verið drukkinn í fluginu.

Flugfreyja Wow air veitti Fréttanetinu viðtal vegna málsins. „Þetta er eitthvað það vandræðalegasta sem ég hef lent í,“ hefur Fréttanetið meðal annars eftir flugfreyjunni.

Viðskiptablaðið hafði samband við upplýsingafulltrúa Wow air og spurði hvort trúnaðarskylda ríkti á starfsmönnum félagsins gagnvart viðskiptavinum þess og staðfestir hún það, líkt og áður segir. Þá kemur fram á Vísi.is að Wow muni funda í dag vegna flugfreyjunnar.