*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Erlent 6. apríl 2021 08:58

Trúrækni auki launamun kynjanna

Trúrækni innan samfélaga skýrir 37% af dreifni launamunar á heimsvísu samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar.

Ritstjórn
Karllægni í æðstu embættum trúarstofnana er sögð setja tóninn í trúræknum samfélögum.
epa

Niðurstöður rannsóknar á áhrifum trúrækni á launamun kynjanna, sem birt var í the Academy of Management Journal í vetur, benda til þess að aukin trúrækni leiði til aukins launamunar kynjanna og að orsakasamhengi sé þar á milli. Live Science fjallaði um rannsóknina.

Rannsóknin náði til 140 landa víða um heim og 50 ríkja Bandaríkjanna. Niðurstöður sýna aukinn launamun kynjanna í trúræknari löndum sem og í trúræknari ríkjum Bandaríkjanna. Fylgnin var til staðar meðal allra stærstu trúarbragða, þar á meðal í kristni, íslam, gyðingdómi, búddhatrú og hindúisma.

Í löndum þar sem yfir 95% sögðu trúna mikilvægan þátt í daglegu lífi þénuðu konur að meðaltali 46% af því sem karlar þénuðu. Í löndum þar sem innan við 20% sögðu trúna mikilvægan þátt í daglegu lífi þénuðu konur að meðaltali 75% af tekjum karla. Aðeins voru laun einstaklinga í fullu starfi til rannsóknar, svo ólíkt vinnuframlag kynjanna skekki ekki niðurstöður.

Samkvæmt rannsókninni mun launamunur kynjanna hverfa á um 109 árum í trúræknum ríkjum Bandaríkjanna en á 28 árum í þeim ríkjum sem trúin hefur minna vægi.

Orsakasamhengi til staðar

Vísindamennirnir beindu spjótum sínum hvort tveggja að fylgni trúrækni og launa kynjanna og orsakasamhengis. Á meðal áhrifaþátta á samband trúar og launa í samfélögum voru viðhorf til kynhegðunar, möguleikar kvenna til að komast til áhrifa og kynhlutverkum. Niðurstöður benda til þess að trúrækni skýri 37% af dreifni launamunar milli samfélaga.  

Þá voru þátttakendur í rannsókninni líklegri til að réttlæta launamun kynjanna þar sem fyrirtækjamenning litaðist af trú og trúartengdum gildum. Niðurstöðurnar sýna þó að markvissar jafnréttisaðgerðir löggjafa og fyrirtækja geti vegið á móti áhrifum trúrækni á launamuninn. Er þar jafnframt vísað í lagasetningar á Íslandi sem dæmi um aðgerðir sem gætu gagnast.