„Samkeppnin hefur verið til góðs bæði fyrir viðskiptavini okkar og Símann sjálfan. Hún hefur leitt til aukinnar áherslu á þjónustu og ýtt undir kröfu markaðar um lipurð og sveigjanleika. Auk þess hefur samkeppnin hvatt okkur áfram í því að standa vörð um gæði þeirrar þjónustu sem við bjóðum okkar viðskiptavinum en gæðakröfur okkar þjónustulausna hafa ávallt verið í fyrirrúmi hérna hjá Símanum.

Á sama tíma hefur þróun í lausnum og tækni verið hraðari en áður. Við hjá Símanum ætlum að leiða samkeppnina á fjarskiptamarkaðnum og byggjum það á framtíðarsýn okkar sem er að Síminn leiði viðskiptavininn inn í framtíðina,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans. Sævar Freyr segir að á þessum tíma sem liðinn er hafi Síminn verið fyrstur með svokallaðan Netsíma eða „Voice over IP“, til útlanda; tækni sem gerir viðskiptavinum kleift að tala um Internetið. Einnig kynnti Síminn Frelsi.

Nafngiftina segir Sævar Freyr að Síminn hafi tekið fyrstur upp yfir fyrirframgreidda farsímaþjónustu. Síminn var fyrstur með ADSL „og síðan ætlum við að halda þeirri þróun áfram og bjóða VDSL á þessu ári, sem mun margfalda gagnaflutningshraðann frá því sem ADSL getur borið. Ýmislegt annað spennandi er einnig handan við hornið eins og til dæmis að bráðlega munum við bjóða upp á nýja ljósleiðaratækni sem við teljum að verði mikið framfaraspor fyrir heimilin í landinu. Kjörorð okkar á markaði er Síminn auðgar lífið og því viljum við geta tryggt að viðskiptavinir geti notað alla þjónustu óháð tækninni sem notuð er,“ segir Sævar Freyr.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .