"Í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja í hagkerfinu um þessar mundir, töldum við rétt að slá frest á frekari stýrivaxtahækkanir og bíða þar til í desember en þá verður aukavaxtaákvörðunardagur. Hvað við í Seðlabankanum gerum þá mun velta á þeim upplýsingum um hagstærðir og gengisþróun sem okkur munu berast á næstu vikum," sagði Davíð Oddsson Seðlabankastjóri í erindi sínum á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands sem bar yfirskriftina: Hagstjónarvandinn, horft til framtíðar.

Davíð útskýrði þau rök sem liggja að baki þeirri ákvörðun Seðlabankans að hækka ekki vexti þann 2.nóvember síðastliðinn en tók jafnframt skýrt fram að Seðlabankanum gæti hugnast að hækka vexti í desember, ef aðstæður verða með þeim hætti. Þá sagði Davíð að þrátt fyrir að staða ríkissjóðs væri góð um þessar mundir og að stjórn fjármála væri vel með farinn þá mætti gæta meira samræmis í aðgerðum stjórnvalda og Seðlabankans. "Nú þegar kosningar eru í nánd má búast við að aðhald í ríkisfjármálum sitji á hakanum," sagði Davíð sem taldi það áhyggjuefni.

Að erindi Davíðs loknu fóru fram pallborðsumræður undir stjórn Tryggva Þórs Herbertssonar hagfræðings. Í pallborði sátu Edda Rós Karlsdóttir forstöðumaður greiningadeildar Landsbankans, Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Glitnis og Þóra Helgadóttir frá greiningardeild Kaupþings banka. Einnig sat í pallborði Þórarinn G. Pétursson hagfræðingur frá Seðlabanka Íslands.

Talsmenn greiningadeildanna voru almennt sammála um að stýrivaxtahækkunarferli Seðlabankans væri nú lokið og búast við að stýrivextir séu nú í hámarki í 14%. Ljóst er af þessu að Seðlabankanum hefur ekki tekist að slá á væntingar greiningar- og markaðsaðila með hörðum tón sínum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi en þá sagð Davíð Oddsson að allar væntingar greiningaraðila þess efnis að vextir myndu lækka hratt á næsta ári væru óraunhæfar.

Greiningaraðilar telja helstu ástæðu fyrir þessu vera að aðhald Seðlabankans sé að aukast þegar horft er til raunvaxtastigs og telja því ekki þörf á frekara aðhaldi. "Aðhald Seðlabankans er að aukast sem er jákvæð þróun," sagði Edda Rós.

Margt brann á þeim fjölda fundargesta sem var kominn til að hlýða á umræðurnar og úr salnum var meðal annars spurt um viðskiptahalla, verðbólgumarkmið og krónubréfaútgáfuna og hvaða áhrif þessi atriði hefðu á stöðugleika og hagstjórn til lengri tíma litið.

Greiningaraðilar voru sammála um að sú spurning hvort það gæfi betri raun fyrir stöðugleik að hækka verðbólgumarkmið Seðlabankans sem nú er 2,5% ætti rétt á sér, en töldu hinsvegar að slíkt væri ekki heillvænlegt skref fyrir trúverðugleika bankans til lengri tíma litið. "Hækkun verðbólgumarkmiðsins yrði sjálfsmorð fyrir trúverðugleika Seðlabankans," sagði Þórarinn G. Pétursson frá Seðlabankanum. "Trúverðugleiki er það mikilvægasta sem Seðlabankinn á," bætti hann við.