*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 20. júlí 2019 19:01

Tryggður eftir einn kaffibolla

„Hingað til hefur umsóknin um líf- og sjúkdómatryggingar, líkt og önnur þjónusta svo sem, verið gerð með stafrænum hætti."

Ritstjórn
Steinunn Hlíf Sigurðardóttir
Aðsend mynd

Því miður er það svo að áföll geta haft mikil áhrif á getu okkar til að afla tekna, og að hafa góðar tryggingar léttir af okkur áhyggjum af fjárhag heimilisins þegar eitthvað kemur upp á. Þá er spurningin bara einföld, hafði fólk sýnt fyrirhyggju og tryggt sig fyrir tekjumissinum, eða ekki,“ segir Steinunn Hlíf Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafar og þjónustu hjá Verði sem innleitt hefur nýja kerfið.

„Hingað til hefur umsóknin um líf- og sjúkdómatryggingar, líkt og önnur þjónusta svo sem, verið gerð með stafrænum hætti, og hægt að gera á netinu, en núna er mögulegt bæði að sækja um trygginguna og fá niðurstöðuna strax. Þannig getur hún verið virkjuð strax, því áhættumatið sjálft er nú orðið stafrænt. Það að geta sest niður heima hjá sér, svara spurningum á netinu og geta labbað frá tölvunni tryggður með líf- og sjúkdómatryggingu hefur verið óþekkt hér á landi þangað til núna.“

Steinunn Hlíf segir að það að fá tilboð í trygginguna ætti ekki að taka lengri tíma en að drekka einn kaffibolla í rólegheitunum og þá geti fólk séð hve há iðgjöldin þeirra verða miðað við sitt eigið heilsufar.

„Iðgjöldin taka mikið til mið af tveimur þáttum, það er annars vegar aldur og hins vegar reykingar. Síðan geta auðvitað ofan á það komið einhverjir heilsufarstengdir þættir sem geta þá orsakað það að fólk fái eitthvert álag á grunniðgjald tryggingarinnar,“ segir Steinunn Hlíf sem segir kerfið vera orðið mjög einfalt.

Flókið áhættumat gert á örskotsstund

„Aðallega er þetta bara að smella á já, nei, eða gera hak, en spurningarnar sem þarf að svara eru um tuttugu. Það er að sjálfsögðu spurt um heilsufarssöguna, það er hvort þekktir sjúkdómar hafi komið upp og almennt út í heilsufar fólks, þá einfaldir hlutir eins og reykingar, hæð, og þyngd, fjölskyldusaga og svo framvegis. Áhættumat persónutrygginga þar á bak við er svo aftur flókið en tæknilausnin sem vinnur úr þessu er unnin í samstarfi við bakhjarla okkar í Hannover Re sem eru með stærstu endurtryggjendum í heimi, á grunni þeirra kerfis, reynslu og þekkingar.“

Auðvitað verður það þó þannig að eitthvað geti þurft að skoða betur en Steinunn Hlíf segir að þá fái viðkomandi að vita það líka strax, og það sé alls ekki algengt ef marka má reynslu annarra sem hafa notað kerfi byggt á sama grunni. „Nei, það er undantekningin, en þá gætum við þurft að kalla eftir frekari gögnum. Áður fyrr þegar fólk var búið að svara þessum helstu heilsufarsspurningum, fóru gögnin í vinnslu sem gat tekið daga eða jafnvel vikur, meðan fólk þurfti að bíða hvort það gæti yfirhöfuð fengið þessa tryggingu,“ segir Steinunn Hlíf.

„En auðvitað ef fólk fær niðurstöðu sem því finnst ekki passa og þú teljir þig vera heilsuhraustan, þá er auðvitað alltaf í boði að fara í mannlegt áhættumat, þar sem farið er yfir þá þætti sem fólk telji að taka þurfi tillit til. Þá er niðurstaðan metin af starfsfólki okkar, en við erum með hjúkrunarfræðinga hjá okkur sem fara í gegnum þetta með fólki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.