Íslandsstofa lét á síðasta ári taka saman skýrslu um tjón útflytjenda vegna svika eða vanefnda þar sem meðal annars er fjallað um greiðslufallstryggingar og fyrirkomulag þeirra hér á landi.

Þar kemur meðal annars fram að meira en helmingur þeirra fyrirtækja sem rætt var við höfðu lent í fjárhagslegu tjóni vegna vanefnda eða svika. „Þau tjón nema allt frá nokkrum tugum þúsunda upp í mörg hundruð milljónir króna.“ Oftast var reyndar um vanefndir að ræða, sjaldnast bein svik.

Þar kemur einnig fram að í Svíþjóð, Danmörku og víðar erlendis sé tryggingasjóður útflutnings það fyrirkomulag sem almennt er viðhaft.

Hér á landi er, samkvæmt lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins (NSA), gert ráð fyrir því að innan sjóðsins sé starfrækt svonefnd Tryggingadeild útflutnings. Samkvæmt lögunum er hlutverk deildarinnar að veita tryggingar og ábyrgðir til þess að efla íslenskan útflutning vöru og þjónustu, ásamt fleiru.

Ítarlega er fjallað um starfsemi deildarinnar í lögunum, en í reynd hefur hún verið óvirk í meira en áratug.

Gufaði upp
Í skýrslu Íslandsstofu er vakin athygli á þessu og furða höfundar sig á því hvers vegna þessi deild varð aldrei virk: „Um hana er ekkert að finna á heimasíðu NSA og gera má ráð fyrir að fyrirtæki viti ekkert af þessari þjónustu en hún er þó enn bundin við lög NSA,“ segir í skýrslunni.

„Spyrja má hvort það skerði samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í útflutningi að ekki sé til staðar á Íslandi sambærileg fyrirgreiðsla opinberra aðila varðandi tryggingar útflutningstekna eins og annars staðar á Norðurlöndunum.“

„Við rekjum það í skýrslunni hvernig þessi deild sem var hluti af Nýsköpunarsjóði hvarf þangað inn og gufaði hreinlega upp í kringum árið 2005,“ segir Ingólfur Sveinsson, skrifstofu- og fjármálastjóri Íslandsstofu.

„Það virðist raunar frekar hafa verið ákvörðun þar inni heldur en að það hafi verið stefna stjórnvalda. Þetta var bara ákvörðun þar á þeim tíma og svo gufaði það upp.“

Hann segir fyrirtæki vissulega geta keypt sér tryggingu hjá erlendu tryggingafyrirtæki eða í banka þegar farið er í áhættusöm viðskipti. Bankarnir áframtryggi sig síðan hjá erlendum aðilum.

„En auðvitað er það miklu dýrara heldur en það sem hægt er að gera til dæmis í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.“