Axa, stærsta tryggingafélag heims, ætlar að hætta öllum fjárfestingum í tóbaksiðnaðnum og mun þar að auki selja hluti sína í tóbaksfyrirtækjum að verðmæti rúmlega 1,7 milljarða evra.

Í tilkynningu frá Axa kemur fram að það sé órökrétt að fjárfesta í bransa sem drepur sex milljónir manns árlega. Þess má geta að tóbaksfyrirtæki töpuðu í síðustu viku máli í hæstarétti Bretlands þar sem reglum um pakkningar á sígarettum var mótmælt. Allar sígarettur á Bretlandi þurfa nú að vera í eins pakkningum með eins letri.

Axa selur griðarlegt magn heilbrigðistrygginga, en fyrirtækið er með 1,36 billjónir evra í stýringu. Axa mun selja hlutabréf í tóbaksfyrirtækjum fyrir 184 milljónir evra og skuldabréf að verðmæti 1,6 milljarða evra. Einungis er um að ræða 0,6% af fyrirtækjaskuldabréfum í eigu Axa.

Hlutabréf í tóbaksfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum á borð við vopnaframleiðendur eru oft kölluð „syndabréf" og leggja sumir fjárfestingarsjóðir upp úr því að láta slík bréf eiga sig af siðferðisástæðum.