Kanadíska tryggingafyrirtækið Fairfax Financial Holdings hefur komist að samkomulagi við stjórn farsímaframleiðandans BlackBerry um yfirtöku á félaginu. Stjórn BlackBerry hefur þegar fengið í hendur viljayfirlýsingu frá tryggingafélaginu þess efnis að það bjóði 9 dali á hvern hlut. Tryggingafélagið á 10% hlut í BlackBerry og er einn stærstu hluthafa fyrirtækisins. Miðað við gengið í viðskiptunum nemur kaupverðið 4,7 milljörðum dala, jafnvirði tæpum 570 milljörðum íslenskra króna.

Eins og VB.is hefur greint frá annað slagið hefur rekstur BlackBerry verið í járnum síðan fyrirtækið heltist úr lestinni í harðri samkeppni á farsímamarkaði. Slíkur var vandræðagangurinn hjá fyrirtækinu að það breytti um nafn í byrjun árs og kastaði hinu gamla, Research in Motion, fyrir róða. Forstjóranum var sparkað um svipað leyti og nýr ráðinn í hans stað. Á sama tíma var nýr sími undir merkjum BlackBerry kynntur til sögunnar sem vonast er til að færa fyrirtækið aftur til vegs og virðingar.

Gengið hefur hrunið

Hluthafar BlackBerry virðast allt annað en kátir með yfirtökuna en gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur fallið um meira en 3% það sem af er dags. Gengið stendur reyndar í 8,5 dölum á hlut sem engu að síður er 50 sentum yfir tilboði tryggingafélagsins. Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir um málið að BlackBerry sé metið sem áhættufjárfesting og hefur eftir forstjóra bandaríska matsfyrirtækisins Rapid Ratings að í ljósi þess hversu stóra hlut kanadíska tryggingafélagið á í BlackBerry þá hafi það þurft að bregðast hratt við, s.s. með kaupum á rekstrinum.

Þegar best lét hjá hluthöfum BlackBerry, þá Research in Motion, í júlí árið 2007 stóð gengi hlutabréfa félagsins í rúmum 230 dölum á hlut. Eins og gengi flesta félaga féll það snarlega um haustið. Það hélt svo áfram að lækka á sama tíma og vegur annarra farsímafyrirtækja tók að aukast. Síðan um áramót hefur það svo fallið úr tæpum 11,8 dölum á hlut í 8,5 eins og áður sagði.